SEPA
SEPA (Single Euro Payments Area) stendur fyrir innleiðingu nýrra greiðslustaðla í samskiptum milli landa.  Samhliða upptöku staðlanna verður gjaldtaka fjármálafyrirtækja sú sama hvort sem um er að ræða evrugreiðslur milli landa eða innanlands. Innleiðing þessara staðla byggir á tilskipun frá Evrópusambandinu og ber verkefnið keim af því. 

Greiðsluveitan hefur haldið utan um fræðslustarf þeim til handa sem málið varðar.  Auk þess hefur Greiðsluveitan aðstoðað fjármálafyrirtæki við að fylla út þau form sem nauðsynleg eru fyrir upptöku staðalsins.
 

Sagan:

Síðasta áratug hafa framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið og Evrópski seðlabankinn lagt vaxandi áherslu á að draga úr kostnaði neytenda og fyrirtækja af peningafærslum milli landa. Upptaka sameiginlegrar peningamálastefnu og sameiginlegs gjaldmiðils hefur leitt af sér kröfu um að viðskipti og framkvæmd greiðslna yfir landamæri sé jafn auðveld og ódýr á milli landamæra sem innan þeirra. Staðan í dag er hins vegar sú að greiðslukerfi einstakra aðildarríkja eru afar ólík og samræmt smágreiðslukerfi er ekki enn fyrir hendi í aðildarríkjunum. Er því framkvæmd smágreiðslna milli landa tímafrek og kostnaðarsöm. 

Stofnanir EB, einkum framkvæmdastjórnin og Evrópski seðlabankinn hafa á undanförnum árum haft það markmið að ná fram aukinni tæknilegri og lagalegri samræmingu á ýmsum sviðum greiðslumiðlunar og greiðslukerfa til að efla evruna sem sameiginlegan greiðslumiðil á innri markaðnum. Í dag er staðan sú að laga- og tækniumhverfi greiðslumiðlunar er ólíkt milli aðildarríkja Evrópusambandsins. Það hefur verið skoðun Evrópuráðsins að samræming á tækniumhverfi greiðslumiðlunar eigi að stjórnast af þeim fyrirtækjum sem starfa á markaðinum. Til að vinna að þessu markmiði var Evrópska greiðslumiðlunarráðið (e. European Payments Council) stofnað árið 2002 af evrópskum bönkum og sparisjóðum. Meginverkefni EPC er þróun sameiginlegt greiðslumiðlunarsvæði fyrir evrugreiðslur (Single European Payments Area – SEPA). SEPA nær jafnt til kortafærslna, millifærslna og annarra tegunda greiðslumiðlunar yfir landamæri.